Wednesday, September 15, 2010

Grænmeti í stað sælgætis?

Á Fésbókinni eru verslunareigendur hvattir til að bjóða 50% afslátt af grænmeti og ávöxtum á laugardögum í stað nammis*. Aðstandendur uppátækisins vilja með því taka þátt í að spara í heilbrigðiskerfinu og uppskera betri heilsu eins og það er orðað. Það er gott og blessað að hvetja veslunareigendur til að bjóða grænmeti og ávexti á betra verði. Það mættu þeir reyndar gera alla daga vikunnar. Er samt ekki óþarfi að stilla þessu upp gegn sælgætinu sem víða er lækkað í verði á þessum degi? Það má ekki gleyma tilganginum með því að hafa nammidag á laugardögum. Hann er einmitt að koma í veg fyrir að íslensk börn séu sínartandi sælgæti alla daga vikunnar. Þess í stað fá þau að borða fylli sína af því einn dag í viku og bursta síðan tennurnar vel á eftir. Það stuðlar að bættri tannheilsu ungviðisins sem er ekki vanþörf á enda áttu Íslendingar lengi vel heimsmet í tannskemmdum barna**. Slíkum nammidögum fylgir þó óneitanlega nokkur kostnaður, ekki síst hjá barnmörgum fjölskyldum, enda er sælgæti verðlagt hátt hér á landi. Með því að lækka verð á sætindunum á laugardögum koma verslunareigendur því til móts við þá fjölmörgu foreldra sem vilja halda nammidaginn heilagan.

*Skástrikun mín
**Ef til vill eiga íslensk börn enn þetta heimsmet.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home