Tuesday, September 21, 2010

Fimmtán plötur á fimmtán mínútum

Á dögunum var í gangi samkvæmisleikur á Facebook sem gekk út á það að notendur áttu að nefna þær 15 plötur sem hefðu fylgt þeim um ævina og væru því í sérstöku uppáhaldi. Ekki var fólki gefinn langur umhugsunartími. Ein mínúta á plötu, 15 mínútur alls. Sem gamall tónlistarunnandi og annálaður smekkmaður gat ég ekki látið mitt eftir liggja. Eftir 15 mínútna umhugsun og örlitla bakþanka lítur listinn svona út.


The Clash - London Calling
The Clash – Sandinista
The Rolling Stones - Exile on Main Street
Velvet Underground - Velvet Underground and Nico
The Jimi Hendrix Experience – Are You Experienced
X-Ray Spex – Germ Free Adolescents
Bob Dylan - Highway 61 Revisited
Bob Dylan - Subterranean Homesick Blues
Bob Dylan – Live 1966
Sigur Rós - Ágætis byrjun
Dave Brubeck Quartet - Time Out
Pixies - Doolittle
The Jesus and Mary Chain – Darklands
Depeche Mode – Violator
The Funerals – Pathetic Me

Hefði ég gert slíkan lista fyrir fimm árum hefði hann sennilega ekki orðið mjög frábrugðinn þessum. Sumar plöturnar hafa verið í uppáhaldi frá því ég var unglingur, aðrar uppgötvaði ég síðar á lífsleiðinni. Allar eiga þær það sameiginlegt að mér finnst gott að hlusta á þær frá upphafi til enda en ekki aðeins einstaka lög. Sumar voru fyrstu kynni mín af listamönnum sem ég hef síðan haft mikið dálæti á eins og Jimi Hendrix og Velvet Underground. Báðar þær plötur eru fyrstu verk téðra listamanna. Það sama verður ekki sagt um Clash-plöturnar tvær á listanum. Þær marka tvo hátindi á ferli þeirrar sveitar þar sem hún hefur komist til nokkurs þroska og tilraunastarfsemi og sköpunargleði ræður ríkjum. Að nokkru leyti á það einnig við um Exile on Main Street með Rolling Stones og Hvíta albúm Bítlanna sem datt út af lista á lokamínútunni. Fleiri Bítla og Stones-plötur komu upp í hugann við valið og það sama má segja um Bob Dylan sem þó nær þremur inn. Allar tengjast þær tímabilinu um miðbik sjöunda áratugarins þegar hann tók sér rafmagnsgítar í hönd við blendnar viðtökur aðdáenda. Flest nöfnin á listanum eru kunnugleg en þó er þar að finna að minnsta kosti tvær sveitir sem ekki eru í alfaraleið tónlistarunnenda: X-Ray Spex og The Funerals. Sú síðarnefnda er einnig ein af aðeins tveimur íslenskum sveitum sem komast á lista að þessu sinni. Af íslenskum plötum sakna ég helst frumburðar Apparats Organ Quartet og Með allt á hreinu með Stuðmönnum sem er ein fyrsta platan sem ég eignaðist. Eina djassplatan er klassíkin Time Out með Dave Brubeck Quartet, tónlist sem hefur verið í eyrunum frá því ég man eftir mér. Einhver kynni að spyrja sig af hverju djassplöturnar eru ekki fleiri. Því er til að svara að mér finnst djasstónlist yfirleitt best ,,live" og hlusta ekki mikið á hana af hljómskífum. Einnig kynni einhver að spyrja sig af hverju þarna er ekki að finna plötur með flytjendum sem þó hafa verið í miklu uppáhaldi í gegnum tíðina svo sem The Doors, The Who, HAM, David Bowie, The Allman Brothers Band, Singapore Sling, Joy Division og Gong. Við því er ekkert einhlítt svar.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home