Tuesday, January 18, 2011

Komdu með fagottið

Mikið afskaplega getur rétthugsun orðið leiðinleg og heimskuleg. Þó að orðið faggot sé vissulega niðrandi per se verður að skoða það í samhengi textans. Í þessu tilviki er ljóðmælandi flutningamaður sem öfundast út í rokkstjörnur á MTV. Honum finnst þær þurfa lítið að hafa fyrir sínu ljúfa lífi á meðan hann verður að strita við að flytja þunga muni á milli staða. Þykir honum hlutskipti sitt ósanngjarnt í samanburðinum og kallar því stjörnurnar öllum illum nöfnum, þar á meðal faggot. Nú vilja kanadískir útvarpssiðapostular banna flutning lagsins vegna þess að téð orð kemur fram í texta lagsins. Samkvæmt úrskurði nefndarinnar er eingöngu hægt að flytja lagið í breyttri útgáfu þar sem orðið hefur væntanlega verið strikað eða skipt út. Með sömu rökum mætti ,,hreinsa" orðalag allra fordómafullra og þröngsýnna persóna í bókmenntum heimsins. Gildir einu hvort um er að ræða skáldsögur, leikrit, ljóð eða dægurlagatexta. Að vísu hefur gætt aukinnar tilhneigingar til þess við endurútgáfu klassískra bókmenntaverka. Bendi ég á góða nýlega grein í New York Times í því sambandi. Þá vill oft gleymast að orðfæri sögupersóna endurspeglar ekki endilega skoðanir eða viðhorf höfundarins heldur er það hluti af persónusköpun hans. Fordómafullt eða heimskulegt orðaval afhjúpar því aðallega innræti skálduðu persónunnar en ekki höfundarins.

1 Comments:

Anonymous Kristín í París said...

Innilega sammála!

11:55 PM  

Post a Comment

<< Home