Friday, January 21, 2011

Villandi verðmerkingar

Við rákumst á DVD-disk með Stundinni okkar í verslunarleiðangri á dögunum. Nokkkur eintök af disknum voru í rekka sem var greinilega verðmerktur: 999 kr. (sem gera 1.000 krónur íslenskar). Það þótti mér gott verð og fleygði því eintaki í körfuna eftir að barnið hafði kinkað kolli til samþykkis. Þegar heim var komið renndi ég yfir kassastrimilinn og sá þá mér til undrunar að verslunin hafði innheimt 2.999 kr. (eða sem samsvarar 3.000 krónum íslenskum) fyrir diskinn góða. Ég gerði mér því aðra ferð í verslunina með krumpaðan strimilinn í vasanum. Þegar ég kom að rekkanum með DVD-diskunum sá ég að þar stóð enn stóru letri 999 kr. Það var ekki fyrr en maður rýndi í smáa letrið fyrir ofan að í ljós kom að verðið átti við disk með Strumpunum en ekki Stundinni okkar. Samt var verðmiðinn greinilega við rekka með Stundinni okkar.
Í kjölfarið hnippti ég í starfskonu og bað kurteislega um að fá að gera athugasemd við verðmerkingar í versluninni. Þegar ég hafði skýrt málið fyrir henni svaraði hún því til að maður gæti lítið gert við því sem viðskiptavinir tækju upp á og vildi því greinilega meina að einhver viðskiptavinur hefði sett diskinn í rangan rekka. Ég benti henni á að þarna væru að minnsta kosti þrír diskar í rekkanum. Þótti mér ótrúlegt að einhver viðskiptavinur hefði tekið sig til og enduraðað þeim öllum. ,,Maður hefur nú orðið vitni að ýmsu," svaraði afgreiðslukonan um leið og hún tók diskana og setti á réttan stað í hillunni. Loks tókst henni að kreista upp svolitla afsökunarbeiðni sem mér hefði þótt vænt um að heyra fyrr í samtalinu, helst fyrir varnarræðuna. Það sem fór mest í taugarnar á mér við þessa uppákomu var einmitt tregða starfskonunnar til að viðurkenna mistök verslunarinnar. Þess í stað var skuldinni umsvifalaust skellt á einhverja óprúttna viðskiptavini.

2 Comments:

Anonymous Anna Kapitola said...

Þú hefðir átt að biðja um að fá að tala við verslunarstjórann. Ég keypti einu sinni 5 konfektkassa til að gefa í jólagjöf á leikskólann þar sem verðið var frábært. Sá þegar heim var komið að verðið var miklu hærra á strimlinum. Ég fór aftur í búðina, með strimilinn, fékk að tala við verslunarstjóra og sýndi honum verðmiðann sem var við þetta konfekt en einmitt í smáu letri stóð nafn á öðru sælgæti. Hann tók verðmiðann orðalaust og færði hann til. Svo fór hann með mér á kassann og endurgreiddi mér mismuninn.

Kv. Anna Kap.

7:46 AM  
Anonymous Anonymous said...

Takk fyrir ábendinguna. Geri það næst ef ég lendi í einhverju þessu líku.

Einar

8:14 AM  

Post a Comment

<< Home