Skógræktarfólk þarf að vera framsýnt og þolinmótt enda sprettur skógur ekki á einni nóttu. Skógrækt er langtímafjárfesting þar sem ekki er neins skyndigróða að vænta. Skógræktarfólk gerir sér jafnvel ekki vonir um að sjá verulegan árangur af striti sínu í lifanda lífi þó að það voni vissulega að komandi kynslóðir muni njóta þess. Líkt og góðir listamenn vita skógræktarmenn að verk þeirra eiga eftir að lifa lengur en þeir. Í skógrækt þarf maður því að hugsa áratugi fram í tímann. Jafnvel aldir. Mikið væri gott ef fleiri gætu tamið sér slíkan hugsunarhátt, ekki síst þeir sem kunna aðeins að hugsa í kjörtímabilum.