Friday, April 30, 2010

Plága í útvarpinu



Næst þegar þetta hel...is lag með Diktu kemur í útvarpinu ætla ég að rífa viðtækið úr sambandi og fleygja því út um gluggann, Keith Richards style. Thank you.

(Kannski læt ég bara nægja að ýta á off-takkann)

Thursday, April 29, 2010

Sjálfhverfasta stétt landsins stendur undir nafni

Mikið afskaplega held ég að kollegar mínir í Blaðamannafélaginu ofmeti áhuga almennings á innri málefnum klúbbsins. Ein aðalfréttin á Vísi í kvöld fjallar um gang mála á aðalfundi félagsins sem hófst um hálftíma áður en fréttin fór á vefinn. Við megum ef til vill þakka fyrir að þeim datt ekki í hug að ryðja annarri dagskrá til hliðar og senda út beint frá samkomunni í sjónvarpinu.

Tuesday, April 27, 2010

White Man in Hammersmith Palais



,,Guð, færðu okkur Joe Strummer aftur. Þú getur fengið Lady Gaga í staðinn."

(þetta stóð einhvers staðar á internetinu).

Sunday, April 25, 2010

Vonbrigði

Hér gæti ég skrifað fáeinar línur um upplifun mína af útskriftarsýningu Listaháskólans árið 2010. Það er hins vegar svo mikið um leiðindi og neikvæðni í samfélaginu þessa dagana að það er ekki á það bætandi. Vonandi tekst betur til að ári.

Friday, April 23, 2010

Nafli alheimsins

Eldgos í Eyjafjallajökli er ekki lengur aðalfréttin í útlöndum líkt og verið hefur undanfarna daga. Áhugi Íslendinga á erlendum fréttamiðlum minnkar væntanlega í kjölfarið og verður aftur svipaður og hann var fyrir gos.

Klisjan um kassann og hugann

Það ber ekki vott um að fólk hugsi mikið út fyrir kassann þegar það tönnlast stöðugt á að maður verði að hugsa út fyrir kassann.

Wednesday, April 21, 2010

Holl áminning

Eldgosið í Eyjafjallajökli er holl áminning fyrir Íslendinga og heimsbyggðina alla. Hún minnir okkur á þá hættu sem stafað getur af eldsumbrotum og það tjón sem þau geta valdið. Og þó telst þetta gos enn sem komið er minni háttar í samanburði við ýmis önnur.

Eldgosið minnir heimsbyggðina á hversu háð hún er orðin nútímatækni og hvernig náttúran getur sett hana úr skorðum með litlum sem engum fyrirvara. Ég efast um að margir af strandaglópum vikunnar hafi leitt hugann að því að eldgos á Íslandi kynni að raska áætlunum þeirra með þessum hætti. Truflanirnar sem hafa fylgt Eyjafjallagosinu eru þó lítilvægar miðað við þær hörmungar sem ofureldgos myndu hafa í för með sér. Það er ekki víst að nokkur mannvera lifði af til að skrá þá sögu.

Það verður þó enginn heimsendir að sinni. Hann bíður betri tíma.

(Núna held ég að ég skrifi ekki meira um eldgos í bili. Tek upp þráðinn aftur þegar Katla gýs 10. júní.)

Monday, April 19, 2010

Elíza og Eyjafjallajökull

Friday, April 16, 2010

Kötlugosið 1918 séð frá Reykjavík




Þessi mynd eftir Magnús Ólafsson sýnir betur en orð hversu öflugt Kötlugosið 1918 var. Þarna má sjá bólstrana bera við Vatnsgeyminn í Reykjavík. Ég hef áður minnst á hvernig afi minn, þá á barnsaldri, neyddist til að flýja ásamt fjölskyldu sinni undan gosinu. Löngu síðar fluttist hann til Reykjavíkur og byggði hús við hliðina á Vatnsgeyminum góða við Háteigsveg.

(Ljósmynd fengin að láni frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur)

Árið 1918

Árið 1918 þegar Katla gaus voru aðeins fimmtán ár liðin frá fyrsta flugi Wright-bræðra. Þotuhreyflar voru enn fjarlæg framtíðarsýn. Nú eru þeir ómissandi hluti af nútímasamgöngum. Þó að menn hafi vitað um hættuna sem þeim stafar af eldgosumundir jökli er eins og menn hafi látið hana sem vind um eyrun þjóta. Þangað til núna.

Sérfræðingar

Eftir bankahrunið voru ólíklegustu menn allt í einu orðnir sérfræðingar í hagfræði og fjármálum. Litlu skipti hvar í stétt menn stóðu, allir höfðu skýringar á reiðum höndum og máli sínu til stuðnings brugðu þeir leikandi fyrir sig hugtökum úr kennslubókum í hagfræði og viðskiptafræði.

Núna er allt í einu annar hver maður orðinn jarðfræðingur.

Thursday, April 15, 2010

Örlagavaldurinn Katla

Þegar Katla gaus síðast, árið 1918, var langafi minn bóndi í Álftaveri í Vestur-Skaftafellssýslu. Svo illa léku hamfarirnar bújörðina að hann neyddist til að yfirgefa hana og flytja ásamt konu sinni og barnaskaranum til Vestmannaeyja. Þar var ekki um auðugan garð að gresja fyrir bóndann þannig að hann skipti um karríer og gerðist yfirfiskimatsmaður. Afi var aðeins á sjöunda ári þegar hann upplifði hörmungarnar í Álftaveri og fluttist til Eyja þar sem hann átti síðar eftir að kynnast verðandi eiginkonu sinni. Ef Katla hefði ekki gosið þetta örlagaríka ár er ekki víst að ég væri að skrifa þessi orð núna.

ay-yah-FYAH'-plah-yer-kuh-duhl

Framburður orðsins Eyjafjallajökull samkvæmt Washington Post.

Wednesday, April 14, 2010

Þegar keðjusagirnar þagna

má aftur greina söng fuglanna í skóginum.

Kötlugos hefst 10. júní

Veðja flösku af rauðvíni á það.

Tuesday, April 13, 2010

Skýrslan árituð af útrásarvíkingum

Ég væri alveg til í að borga svolítinn pening fyrir þannig eintak.

Sandinista! - Taka tvö

Mikið afskaplega hlýtur að hafa verið gaman að taka upp svona plötu og ótrúleg tónlistarleg þróun hjá hljómsveit sem örfáum árum fyrr spilaði nær eingöngu hrátt og einfalt pönk. Þetta er samt engin London Calling.

Monday, April 12, 2010

Skýrlsa og flesna

Ég skrifaði alltaf fuglaflesna á sínum tíma.

Seint berast tíðindin

Í dag berast loks fréttirnar sem maður hefði átt að heyra haustið 2008, ef ekki fyrr.

Saturday, April 10, 2010

Sandinista!

Ég hef verið einlægur aðdáandi The Clash frá því ég var 14 eða 15 ára. Aðdáunin hefur vaxið með árunum sem verður ekki sagt um allar hljómsveitir sem ég kynntist á þessum tíma. Það var samt ekki fyrr en í dag (eða öllu heldur í gær) að ég festi kaup á þessari umdeildu plötu enda hef ég verið hálfhræddur við hana. Þegar hún kom út á sínum tíma var hún þreföld vínylplata sem sumir segja að hefði nægt að vera tvöföld. Aðrir ganga enn lengra og segja að hún hefði verið góð einföld plata. Ég er á báðum áttum eftir fyrstu hlustun. Hún virðist vera langt frá því jafnsterk og London Calling (sem er vel að merkja ein af mínum uppáhaldsplötum ásamt Exile on Main Street með Stones og fleiri góðum). Ég ætla þó að bíða með að fella lokadóm fyrr en ég hef hlustað á hana að minnsta kosti tíu sinnum.

Síðasta sveitin sem skipti máli

Á sínum tíma var The Clash stundum kölluð ,,eina hljómsveitin sem skipti máli". Þegar maður lítur yfir þróun rokksins undanfarin ár og áratugi hallast maður að því að hún hafi verið ,,síðasta hljómsveitin sem skipti máli". Í útvarpinu er hver rokksveitin annarri leiðinlegri, eintómir vælukjóar og hermikrákur sem hafa ekki upp á neitt nýtt eða spennandi að bjóða. Mætti ég þá frekar biðja um Buddy Holly eða The Rolling Stones. Eða The Clash.

Friday, April 09, 2010

Malcolm McLaren In Memoriam

Pönkið hefði plummað sig vel án hans. En hann var án efa góður bisnesskarl.

Thursday, April 08, 2010

Aldrei að treysta broskarli

:-)

Wednesday, April 07, 2010

Auðlegð íslenskrar tungu uppfærð

Ég hreinlega varð að uppfæra tilvitnanasafnið góða í fyrsta skipti í nærri tvö ár. Aðalhvatinn var þingsályktunartillaga um stofnun prófessorsembættis kennt við Jónas Hallgrímsson. Lesendur (ef einhverjir eru) geta enn sem fyrr sett inn ábendingar um undarlegt málfar í kommentakerfið.

Tuesday, April 06, 2010

Hannes Hólmsteinn

Með þetta nafn ætti maðurinn að vera annað hvort listmálari eða ljóðskáld.

Monday, April 05, 2010

Orð og myndir

Stríðsherrar reyna alltaf að takmarka aðgengi fólks með myndavélar að vígvöllum heimsins. Þeir vita að myndefni þaðan getur haft mikil áhrif á afstöðu almennings til stríðsrekstursins. Það á jafnt við um hreyfimyndir sem ljósmyndir. Það sem hreyfir mest við manni núna eru þó ekki myndirnar sem slíkar heldur ummæli þeirra sem halda um gikkinn.

Friday, April 02, 2010

Negldur á kross

Ætti maður að láta krossfesta sig á föstudaginn langa að ári? Það myndi óneitanlega lífga svolítið upp á þennan leiðinlegasta dag ársins. Svo kæmist maður kannski í sjónvarpið.