Tuesday, January 25, 2011

Hverju er glerið að halda frá þér?

Hversu mikið af tilverunni kemur til þín af skjá? Er jafnspennandi að horfa á hluti eins og að gera þá? Hefur þú tíma til að gera alla þá hluti sem þig langar til að gera? Hefurðu þrek til þess?
(Dansað á ösku daganna)

Stóra stjórnlagaþingsmálið

Ég held að eftirfarandi tilvitnun í frétt Ríkisútvarpsins lýsi betur en nokkuð annað hvaða hvatir lágu að baki kærunni:

Skapti Harðarson, einn kærenda var ánægður með niðurstöðuna, og telur að ekki hefði verið hægt að komast að annarri niðurstöðu. „Heppilegast væri náttúrlega að flauta alla þessa vitleysu af og þetta fjáraustur á tímum þegar við höfum nóg annað við peningana að gera. En að öðrum kosti gætu þeir haldið áfram og efnt til annarra kosninga, sem ég held að væri nú bara til að bíta höfuðið af skömminni.“

Friday, January 21, 2011

Villandi verðmerkingar

Við rákumst á DVD-disk með Stundinni okkar í verslunarleiðangri á dögunum. Nokkkur eintök af disknum voru í rekka sem var greinilega verðmerktur: 999 kr. (sem gera 1.000 krónur íslenskar). Það þótti mér gott verð og fleygði því eintaki í körfuna eftir að barnið hafði kinkað kolli til samþykkis. Þegar heim var komið renndi ég yfir kassastrimilinn og sá þá mér til undrunar að verslunin hafði innheimt 2.999 kr. (eða sem samsvarar 3.000 krónum íslenskum) fyrir diskinn góða. Ég gerði mér því aðra ferð í verslunina með krumpaðan strimilinn í vasanum. Þegar ég kom að rekkanum með DVD-diskunum sá ég að þar stóð enn stóru letri 999 kr. Það var ekki fyrr en maður rýndi í smáa letrið fyrir ofan að í ljós kom að verðið átti við disk með Strumpunum en ekki Stundinni okkar. Samt var verðmiðinn greinilega við rekka með Stundinni okkar.
Í kjölfarið hnippti ég í starfskonu og bað kurteislega um að fá að gera athugasemd við verðmerkingar í versluninni. Þegar ég hafði skýrt málið fyrir henni svaraði hún því til að maður gæti lítið gert við því sem viðskiptavinir tækju upp á og vildi því greinilega meina að einhver viðskiptavinur hefði sett diskinn í rangan rekka. Ég benti henni á að þarna væru að minnsta kosti þrír diskar í rekkanum. Þótti mér ótrúlegt að einhver viðskiptavinur hefði tekið sig til og enduraðað þeim öllum. ,,Maður hefur nú orðið vitni að ýmsu," svaraði afgreiðslukonan um leið og hún tók diskana og setti á réttan stað í hillunni. Loks tókst henni að kreista upp svolitla afsökunarbeiðni sem mér hefði þótt vænt um að heyra fyrr í samtalinu, helst fyrir varnarræðuna. Það sem fór mest í taugarnar á mér við þessa uppákomu var einmitt tregða starfskonunnar til að viðurkenna mistök verslunarinnar. Þess í stað var skuldinni umsvifalaust skellt á einhverja óprúttna viðskiptavini.

Tuesday, January 18, 2011

Komdu með fagottið

Mikið afskaplega getur rétthugsun orðið leiðinleg og heimskuleg. Þó að orðið faggot sé vissulega niðrandi per se verður að skoða það í samhengi textans. Í þessu tilviki er ljóðmælandi flutningamaður sem öfundast út í rokkstjörnur á MTV. Honum finnst þær þurfa lítið að hafa fyrir sínu ljúfa lífi á meðan hann verður að strita við að flytja þunga muni á milli staða. Þykir honum hlutskipti sitt ósanngjarnt í samanburðinum og kallar því stjörnurnar öllum illum nöfnum, þar á meðal faggot. Nú vilja kanadískir útvarpssiðapostular banna flutning lagsins vegna þess að téð orð kemur fram í texta lagsins. Samkvæmt úrskurði nefndarinnar er eingöngu hægt að flytja lagið í breyttri útgáfu þar sem orðið hefur væntanlega verið strikað eða skipt út. Með sömu rökum mætti ,,hreinsa" orðalag allra fordómafullra og þröngsýnna persóna í bókmenntum heimsins. Gildir einu hvort um er að ræða skáldsögur, leikrit, ljóð eða dægurlagatexta. Að vísu hefur gætt aukinnar tilhneigingar til þess við endurútgáfu klassískra bókmenntaverka. Bendi ég á góða nýlega grein í New York Times í því sambandi. Þá vill oft gleymast að orðfæri sögupersóna endurspeglar ekki endilega skoðanir eða viðhorf höfundarins heldur er það hluti af persónusköpun hans. Fordómafullt eða heimskulegt orðaval afhjúpar því aðallega innræti skálduðu persónunnar en ekki höfundarins.

Thursday, November 18, 2010

Feigð og fegurð í jólatrjáaskógi

Við leitina að rétta jólatrénu sannast hið fornkveðna: Það geta ekki allir verið gordjöss. Það er samt ekki tekið út með sældinni að vera vel vaxinn og fallegur. Þeir sem hafa útlitið með sér gjalda fyrir það með lífinu. Aðeins þeir ljótustu lifa af.

Monday, November 15, 2010

Að hugsa í áratugum

Skógræktarfólk þarf að vera framsýnt og þolinmótt enda sprettur skógur ekki á einni nóttu. Skógrækt er langtímafjárfesting þar sem ekki er neins skyndigróða að vænta. Skógræktarfólk gerir sér jafnvel ekki vonir um að sjá verulegan árangur af striti sínu í lifanda lífi þó að það voni vissulega að komandi kynslóðir muni njóta þess. Líkt og góðir listamenn vita skógræktarmenn að verk þeirra eiga eftir að lifa lengur en þeir. Í skógrækt þarf maður því að hugsa áratugi fram í tímann. Jafnvel aldir. Mikið væri gott ef fleiri gætu tamið sér slíkan hugsunarhátt, ekki síst þeir sem kunna aðeins að hugsa í kjörtímabilum.

Wednesday, October 27, 2010

Allt er í heiminum hverfult

Rafbækur seljast meira en prentaðar

Walkman úr sér genginn

Dauðastríð geisladisksins



(fyrirsagnir í tækni- og vísindafréttum á mbl.is)

Sunday, October 24, 2010

Tilvitnun dagsins

,,Pólitík er atvinnuvegur skíthæla."
(Þórbergur Þórðarson, Ofvitinn.)